20.06.18 | 22:31
Umsagnir
28.09.15
Mælum svo sannarlega með Argentínu

Við hjónin komum til ykkar 17. sept. s.l. og þvílíkar móttökur sem við fengum hjá ykkur. Um leið og við komum að staðnum og gengum inn göngin fann maður andrúmsloftið sem átti eftir að fullkomna kvöldið. Ég gat ekki orða bundist og hafði á orði að hér væri búið að þrífa út á stétt. Þið tókuð á móti okkur með bros á vör og fylgduð til sætis. Svo komu réttirnir; fyrst pönnusteikt bleikja og framúrskarandi hvítvín með, þá voru grillaðir humarhalar og hvítvínið sem við fengum með þeim var meira en framúrskarandi enda lífrænt ræktað. Svo kom óvæntur milliréttur Carpaccio surf and turf, þvílíka snilldin sem þessi réttur er hjá ykkur, ég kem bráðlega aftur til að athuga hvort þetta hafi virkilega verið svona gott :) Og þá var komið að steikinni. Það er nú bara þannig að við erum öll misjöfn og höfum mismunadi smekk og þannig er með þessa konu sem hér skrifa að hún er bara ekkert fyrir nautakjöt. Steikin í boðinu var s.s. nautasteik, en þegar hér var komið sögu var konan orðin svo hamingjusöm og aðeins létt í höfðinu og kom sjálfri sér á óvart með því að biðja um steikina medium-steikta (NB. konan þolir ekki blóð og hafði bara fengið Well done steikur 2sinnum) En þarna var eitthvað nýtt bragð, steikin rann ljúflega niður með frábæru rauðvíni, svo vel að líklega á ég eftir að prufa nautið aftur. Eiginmaðurinn fæddur í nautsmerkinu veit ekkert betra en nautasteik svo hann var í himnaríki með sína medium rear steik. Eftirrétturinn var Baileys súkkulaðimús með hindberja compot og appelsínu sorbet, yndisleg samsetning þar sem sorbetinn er frískandi á eftir súkkulaðimúsinn. Og svo var kaffi og koníak/grand og súkkulaðimolinn ómissandi. Þjónustan var frábær og greinilega passað upp á að réttirnir kæmu hvorki of snemma né of seint. Vínin sem boðið var upp á voru í einu orði sagt frábær og boðin úr flöskum sem opnaðar voru við borðið okkar. Við fengum góðar upplýsingar um allan matinn og vínin og ýmislegt annað sem konunni lá á hjarta, eins og t.d. hvaða söngkona væri að syngja núna og hvaðan koma þessir fallegu kaffibollar. Öllu svarað með brosi í vör. Við fundum fyrir því að ykkur var umhugað um að okkur liði vel og kvöldið yrði frábært a.m.k. var það mín upplifun, vegna þess að þið komuð og spurðuð eftir hvern rétt hvort okkur hefði líkað maturinn, sem var og kvöldið í heild sinni. Kærar þakkir fyrir að bjóða okkur til ykkar og að gera kvöldið ógleymanlegt. Við mælum svo sannarlega með ykkur á Argentínu

http://argentina.is